Íslandsmeistararnir lögðu Stjörnuna

Glynn Watson hjá Þór frá Þorlákshöfn með boltann í leiknum …
Glynn Watson hjá Þór frá Þorlákshöfn með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

Íslandsmeistarar Þórs frá Þorlákshöfn gerðu frábæra ferð í Garðabæinn þegar liðið vann góðan 97:92 sigur gegn Stjörnunni í þriðju umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik, Subway-deildarinnar í kvöld.

Leikurinn fór afar fjörlega af stað þar sem mikið var skorað á báða bóga. Gestirnir úr Þorlákshöfn leiddu með sex stigum, 32:26, að loknum fyrsta leikhluta.

Íslandsmeistararnir settu svo í fluggírinn í öðrum leikhluta þar sem Stjörnumenn sáu ekki til sólar. Þórsarar sölluðu niður stigunum og leiddu með 18 stigum, 61:43, þegar flautað var til leikhlés.

Stjörnumenn brugðust við með hreint út sagt frábærum þriðja leikhluta og minnkuðu muninn aftur niður í sex stig, 78:72.

Með því lögðu heimamenn úr Garðabænum grunn að spennandi fjórða og síðasta leikhluta þar sem allt var í járnum til að byrja með.

Það var þó gestunum til tekna þar sem þeir hleyptu Stjörnumönnum ekki nær en fimm stigum frá sér í leikhlutanum, 87:82.

Undir lok leiksins komst Þór svo aftur á mjög gott ról og náði mest 14 stiga forystu, 96:82, í fjórða leikhlutanum.

Stjörnumenn löguðu aðeins stöðuna undir lokin en niðurstaðan að lokum sterkur fimm stiga útisigur Þórs.

Robert Turner III í liði Stjörnunnar fór á kostum og náði tvöfaldri tvennu er hann skoraði 35 stig og tók tíu fráköst að auki.

Hilmar Smári Henningsson var sömuleiðis öflugur og skoraði 22 stig fyrir Stjörnuna.

Í liði Þórs kom Luciano Massarelli ógnarsterkur af varamannabekknum og skoraði 29 stig.

Þar á eftir var Daniel Mortensen með 23 stig. Þá náði Ronaldas Rutkauskas tvöfaldri tvennu fyrir Þór þegar hann skoraði 17 stig og tók 15 fráköst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka