Keflavík vann þægilegan 89:73 sigur gegn ÍR í þriðju umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik, Subway-deildarinnar, í Breiðholtinu í kvöld.
Eftir að hafa lent 4:5 undir í blábyrjun gaf Keflavík strax tóninn er liðið skoraði 11 stig í röð í kjölfarið, komst 15:5 yfir og tók yfir leikinn. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 22:12.
Í öðrum leikhluta bættu Keflvíkingar enn í og leiddu með 23 stigum í hálfleik, 51:28
ÍR-ingar bitu í skjaldarrendur og byrjuðu síðari hálfleikinn mjög vel þar sem þeir náðu að minnka muninn niður í 12 stig, 59:47.
Í kjölfarið náðu Keflvíkingar hins vegar aftur góðum tökum á leiknum og leiddu með 17 stigum að loknum þriðja leikhluta, 66:49.
Skaðinn var skeður fyrir ÍR og juku Keflvíkingar einungis forskot sitt þar sem þeir náðu 24 stiga forystu, 75:51, í fjórða og síðasta leikhlutanum.
ÍR-ingum leist ekki á blikuna og tóku vel við sér í kjölfarið þegar þeir minnkuðu muninn í 15 stig, 78:63.
Þá fór í hönd frábær kafli hjá Keflavík þar sem liðið náði aftur 24 stiga forystu, 89:65. ÍR skoraði hins vegar síðustu átta stig leiksins og góður 16 stiga sigur Keflavíkur staðreynd.
Keflavík er eftir sigurinn með fullt hús stiga á toppi deildarinnar á meðan ÍR situr eftir með sárt ennið án stiga á botninum.
David Okeke var stigahæstur Keflvíkinga með 21 stig og Dominykas Milka kom þar á eftir með 20 stig. Hörður Axel Vilhjálmsson náði þá tvöfaldri tvennu með því að skora 13 stig og gefa 10 stoðsendingar.
Shakir Smith var stigahæstur ÍR-inga með 14 stig.