Nýliðar Vestra unnu sterkan 88:77 sigur gegn Þór frá Akureyri í þriðju umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik, Subway-deildarinnar, á Ísafirði í kvöld. Um var að ræða fyrsta sigur liðsins á tímabilinu.
Leikurinn var í járnum til að byrja með þar sem Vestri leiddi með einu stigi, 20:19, að loknum fyrsta leikhluta.
Í öðrum leikhluta bættu heimamenn í og leiddu með átta stigum, 47:39, í hálfleik.
Þórsarar reyndu hvað þeir gátu að koma sér inn í leikinn en Vestri náði að halda í forystuna sína með því að vinna bæði þriðja og fjórða leikhluta naumlega og tryggja sér þannig góðan 11 stiga sigur.
Ken-Jah Bosley átti stórleik í liði Vestra og skoraði 28 stig.
Skammt undan var Dúi Þór Jónsson hjá Þór með 25 stig.
Vestri er sem áður segir komið á blað í deildinni og er nú eitt af fimm liðum sem hafa unnið einn leik eftir þrjár umferðir.
Þór er hins vegar í næstneðsta sæti án stiga, líkt og botnlið ÍR.
Gangur leiksins:: 7:4, 10:10, 17:14, 20:19, 26:21, 31:28, 41:34, 47:39, 54:46, 59:51, 63:56, 69:59, 69:65, 77:69, 88:72, 88:77.
Vestri: Ken-Jah Bosley 28, Julio Calver De Assis Afonso 19/10 fráköst/5 stoðsendingar, Hilmir Hallgrímsson 15/9 fráköst, Marko Jurica 14/6 fráköst, Nemanja Knezevic 7/14 fráköst, Hugi Hallgrimsson 3, Rubiera Rapaso Alejandro 2/7 stoðsendingar.
Fráköst: 32 í vörn, 13 í sókn.
Þór Ak.: Dúi Þór Jónsson 25/6 fráköst/8 stoðsendingar, Eric Etienne Fongue 19/5 fráköst, Atle Bouna Black Ndiaye 18/7 fráköst, Ragnar Ágústsson 8/6 fráköst, Baldur Örn Jóhannesson 7/5 fráköst.
Fráköst: 21 í vörn, 8 í sókn.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Helgi Jónsson, Birgir Örn Hjörvarsson.
Áhorfendur: 200