Varamenn Hauka í Subway-deild kvenna í körfuknattleik skoruðu hvorki meira né minna en 70 stig af 84 í sigri liðsins gegn Grindavík í kvöld.
Í byrjunarliði Hauka í kvöld voru þær Haiden Denise Palmer, Helena Sverrisdóttir, Tinna Guðrún Alexandersdóttir, Eva Margrét Kristjánsdóttir og Elísabeth Ýr Ægisdóttir. Þær skoruðu samtals 14 stig en af þeim var Palmer stigahæst með sex stig. Helena reyndar spilaði einungis átta mínútur, en hún þurfti að ljúka leik vegna meiðsla.
Af bekknum voru svo atkvæðamestar þær Lovísa Björt Henningsdóttir með 29 stig og Sólrún Inga Gísladóttir með 21 stig. Þá skoraði Rósa Björk Pétursdóttir 12, Bríet Sif Hinriksdóttir 4 og þær Dagbjört Gyða Hálfdánardóttir og Jana Falsdóttir 2 stig hvor.
Ótrúlegt framlag af varamannabekk Hauka og gæti hreinlega verið um nýtt met að ræða, en rúmlega 83% stiga Hauka komu af bekknum í kvöld.