Chicago Bulls hefur farið frábærlega af stað á tímabilinu í NBA-deildinni í körfuknattleik og unnu sinn þriðja sigur í jafnmörgum leikjum í nótt.
Chicago vann þá þægilegan 97:82 sigur gegn Detroit Pistons á heimavelli þar sem sterk liðsheild heimamanna gerði vart við sig líkt og í sigurleikjunum tveimur þar á undan.
Demar DeRozan var stigahæstur Chicago-manna með 21 stig. Þar á eftir kom Nikola Vucevic með tvöfalda tvennu þegar hann skoraði 15 stig og tók 19 fráköst.
Skammt undan voru Zach LaVine með 14 stig, Lonzo Ball með 13 og Alex Caruso með 12.
Ríkjandi NBA-meistarar Milwaukee Bucks fara einnig vel af stað á nýju tímabili. Eftir að hafa unnið Brooklyn Nets í fyrsta leik tapaði liðið stórt gegn Miami í öðrum leik sínum
Í nótt bætti liðið upp fyrir það með sterkum 121:111 útisigri gegn San Antonio Spurs.
Khris Middleton átti frábæran leik í liði Milwaukee og skoraði 28 stig.
Skammt undan var gríska skrímslið Giannis Antetokounmpo með 21 stig. Hann tók auk þess tók átta fráköst og gaf átta stoðsendingar.
Sex aðrir leikir fóru fram í NBA-deildinni í nótt.
Úrslit næturinnar:
Chicago – Detroit 97:82
San Antonio – Milwaukee 111:121
Cleveland – Atlanta 101:95
Indiana – Miami – 102:91
Toronto – Dallas 95:103
Minnesota – New Orleans 96:89
Portland – Phoenix 134:105
LA Clippers – Memphis 114:120