Fjölnir vann auðveldan sigur á Skallagrími, 87:58, í fyrsta leik kvöldsins í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, Subway-deildinni, en leik liðanna í Dalhúsum var að ljúka.
Fjölnir var með naumt forskot, 24:23, eftir fyrsta leikhluta og síðan 39:33 í hálfleik. Í seinni hálfleik skildu leiðir með liðunum og munurinn jókst mest í fjórða leikhluta.
Fjölnir er þá með fjögur stig eftir fjóra leiki en Borgnesingar hafa tapað öllum fimm leikjum sínum og eiga erfiðan vetur fyrir höndum.
Sanja Orozovic skoraði 24 stig fyrir Fjölni, Dagný Lísa Davíðsdóttir 19 og Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir 14.
Hjá Skallagrími var Inga Rósa Jónsdóttir með 16 stig, Nikola Nedoroscíková 14 og Maja Michalska 13.