Bjarni Magnússon, þjálfari Subway-deildar liðs Hauka í körfuknattleik sagði frá því í viðtali við karfan.is eftir leik við Grindavík í kvöld að meiðsli Helenu Sverrisdóttur litu ekki vel út.
Helena spilaði einungis átta mínútur í leiknum í kvöld áður en hún lauk leik vegna meiðsla.
„Þetta lítur ekkert rosalega vel út. Við þurfum bara að bíða og sjá, hún er búin að eiga í hnémeiðslum undanfarið, eitthvað liðþófatengt. Ég þarf að fá upplýsingar á eftir, þetta lítur ekki vel út allavega.“
Ljóst er að það væri mikil blóðtaka fyrir Hauka ef Helena verður lengi frá. Bæði er liðið í harðri baráttu í Subway-deildinni ásamt því að vera í riðlakeppni Evrópubikarsins.
Frétt karfan.is má sjá hér.