Tók 27 fráköst fyrir nýliðana

Aliyah A'taeya Collier var mjög öflug í liði Njarðvíkur í …
Aliyah A'taeya Collier var mjög öflug í liði Njarðvíkur í kvöld og skorar hér tvö af stigum sínum. mbl.is/Óttar Geirsson

Góð byrjun nýliðanna úr Njarðvík í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, Subway-deildinni, heldur áfram og Suðurnesjastúlkurnar unnu í kvöld sinn fjórða sigur í fyrstu fimm umferðunum.

Þær sóttu Breiðablik heim í Kópavog og sigruðu 74:62 eftir jafnræði lengi vel. Breiðablik var yfir í hálfleik, 32:29, en Njarðvíkurkonur sneru leiknum sér í hag í þriðja leikhluta þegar þær skoruðu 22 stig gegn 12. Þær fylgdu því eftir í síðasta leikhlutanum og innbyrtu stigin.

Njarðvík er þá með átta stig eftir fimm leiki en Breiðablik er hinsvegar í næstneðsta sætinu með tvö stig eftir fimm leiki.

Hin bandaríska Aliyah Collier hefur reynst Njarðvíkingum happafengur og Blikar réðu ekkert við hana í kvöld. Hún skoraði 22 stig fyrir Njarðvík og tók hvorki fleiri né færri en 27 fráköst, þar af 20  varnarfráköst. Þar að auki átti Collier 6 stoðsendingar.

Diane Diéné Oumou skoraði 12 stig fyrir Njarðvík og Lavína Joao Gomes 12. Hjá Breiðabliki var Chelsey Moriah Shumpert með 31 stig og Iva Georgieva 17.

Gangur leiksins:: 7:6, 17:13, 20:17, 23:21, 27:23, 27:28, 29:28, 32:29, 34:35, 38:40, 38:46, 44:51, 44:55, 46:59, 54:64, 62:74.

Breiðablik: Chelsey Moriah Shumpert 31/5 fráköst, Iva Georgieva 17/9 fráköst, Anna Soffía Lárusdóttir 8/7 fráköst, Telma Lind Ásgeirsdóttir 2/5 fráköst, Þórdís Jóna Kristjánsdóttir 2, Birgit Ósk Snorradóttir 2/4 fráköst/4 varin skot.

Fráköst: 24 í vörn, 9 í sókn.

Njarðvík: Aliyah A'taeya Collier 22/27 fráköst/6 stoðsendingar, Diane Diéné Oumou 12/8 fráköst, Lavína Joao Gomes De Silva 12/9 fráköst, Vilborg Jonsdottir 9/5 stoðsendingar, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 7, Eva María Lúðvíksdóttir 7, Kamilla Sól Viktorsdóttir 5.

Fráköst: 33 í vörn, 16 í sókn.

Dómarar: Davíð Tómas Tómasson, Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson, Stefán Kristinsson.

Áhorfendur: 67

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert