Argentínumaðurinn reyndi hjá Njarðvík, Nicolas Richotti, segir að nú vilji öll lið í Subway-deildinni í körfuknattleik leggja Njarðvíkinga að velli og leikmenn Njarðvíkur þurfi að vera búnir undir það.
Eftir að hafa unnið bikarkeppnina í haust, og fyrstu þrjá leikina í deildinni, kom að því að Njarðvík tapaði þegar liðið heimsótti Grindavík í kvöld. Grindavík vann 87:82 eftir fjörugan leik.
„Þeir áttu mjög góðan leik og okkur leið aldrei nógu vel í leiknum. Þeir tóku á okkur, börðust vel og hittu úr klikkuðum skotum. Ég óska Grindvíkingum til hamingju með sigurinn vegna þess að þeir undirbjuggu sig greinilega vel,“ sagði Richotti meðal annars í samtali við mbl.is í Grindavík í kvöld.
Viðtalið við hann í heild sinni er að finna í meðfylgjandi myndskeiði.