„Ég fór í myndatöku fyrir þremur vikum og þá kom í ljós að ég er með marinn liðþófa, bólgur og vökva inni á hnénu,“ sagði Helena Sverrisdóttir, leikmaður kvennaliðs Hauka í körfuknattleik, í samtali við mbl.is í dag.
Helena spilaði einungis átta mínútur í 84:50-sigri Hauka gegn Grindavík í úrvalsdeild kvenna, Subway-deildinni, í HS Orku-höllinni í Grindavík í gær en hún fór meidd af velli.
„Ég hef því verið að spila hálfmeidd og ferðalagið til Frakklands í Evrópubikarnum um daginn hefur eflaust ekki hjálpað. Bólgurnar hafa eflaust aukist eitthvað eftir það og ég steig eitthvað skringilega niður í fótinn í gær.
Þetta var ekki óeðlileg hreyfing eða neitt slíkt en hnéð var í smá beygju og ég fann fyrir skrítnum verk. Ég er ekkert skárri í dag en í gær og við erum bara að skoða núna hvað er hægt að gera fyrir mig,“ sagði Helena.
Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, sagði frá því í viðtali við Karfan.is í gær að Helena gæti verið frá í einhvern tíma en sjálf vonast hún til þess að vera klár í slaginn sem allra fyrst.
„Ég er nokkuð örugg á því að það er ekkert slitið í hnénu en ég veit satt best að segja ekki sjálf hvað er að gerast nákvæmlega. Þetta er í ferli núna hjá sjúkraþjálfurum Hauka og við erum bara að meta næstu skref.
Eins og staðan er í dag langar mig að keppa á fimmtudaginn gegn Brno í Evrópubikarnum en þetta gerðist bara í gærkvöldi og við þurfum að bíða aðeins og sjá hvernig þetta þróast,“ bætti Helena við í samtali við mbl.is.