Íslandsmeistararnir bættu á kvalir Breiðhyltinga

Glynn Watson átti stórleik í liði Þórs í kvöld.
Glynn Watson átti stórleik í liði Þórs í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

Góð byrjun Íslandsmeistara Þórs frá Þorlákshöfn í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Subway-deildinni, heldur áfram. Í kvöld fékk liðið botnlið ÍR í heimsókn og vann þægilegan 105:93 sigur.

Mikið jafnræði var með liðunum til að byrja með og leiddu heimamenn í Þór með tveimur stigum, 29:27, að loknum fyrsta leikhluta.

Þórsarar bættu aðeins í í öðrum leikhluta og leiddu með sjö stigum, 52:45, í hálfleik.

Jafnt og þétt juku heimamenn hins vegar forskot sitt í síðari hálfleik og stungu Breiðhyltinga af í fjórða leikhluta þar sem þeir náðu mest 24 stiga forystu, 98:74.

ÍR-ingar löguðu stöðuna aðeins undir lokin en niðurstaðan öruggur 12 stiga sigur Þórs.

Þór hefur nú unnið þrjá af fyrstu fjórum leikjum sínum og er áfram í fimmta sæti deildarinnar, nú með 6 stig líkt og fjögur önnur lið fyrir ofan það.

Þrjú þeirra eiga þó leiki í kvöld og því gæti staðan breyst með kvöldinu, þó Þór muni halda fimmta sætinu sama hvernig fer.

ÍR er áfram á botni deildarinnar án stiga að loknum fjórum leikjum.

Glynn Watson átti stórleik í liði Þórs og náði tvöfaldri tvennu er hann skoraði 28 stig og tók 11 fráköst. Þá hitti Davíð Arnar Ágústsson frábærlega, skoraði úr sjö af átta skotum sínum og skoraði 19 stig.

Stigahæstur ÍR-inga var Collin Pryor með 21 stig og skammt undan var Shakir Smith með 18 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert