Valur fékk nýliða Vestra í heimsókn og átti í talsverðum vandræðum með þá þegar liðin mættust í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Subway-deildinni, í kvöld.
Leikurinn reyndist enda ansi jafn og spennandi.
Valsmenn fóru vel af stað og leiddu 19:10 að loknum fyrsta leikhluta.
Vestramenn tóku sig saman í andlitinu og voru sterkari í öðrum leikhluta. Valur fór því með nauma forystu, 40:37, til leikhlés.
Áfram var talsvert jafnræði með liðunum þar sem Valur leiddi með tveimur stigum að loknum þriðja leikhluta.
Um miðjan fjórða leikhluta náðu gestirnir frá Vestfjörðum að jafna metin, 63:63. Valur svaraði með því að skora næstu fimm stig og lögðu þannig grunninn að sigri sem varð á endanum sjö stig, 74:67.
Kristófer Acox náði tvöfaldri tvennu þegar hann skoraði 19 stig og tók tíu fráköst fyrir Val. Callum Lawson skoraði einni 19 stig fyrir liðið.
Ken-Jah Bosley var stigahæstur Vestramanna með 18 stig og þá náði Julio Afonso tvöfaldri tvennu er hann skoraði 16 stig og tók 11 fráköst að auki.