Gamla ljósmyndin: Algeng sjón

Morgunblaðið/Einar Falur Ingólfsson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Þessi sjón var algeng um tíma í íslensku íþróttalífi. Björg Hafsteinsdóttir og Anna María Sveinsdóttir handfjötluðu ósjaldan bikara á sínum ferli í körfuknattleik. 

Báðar eru þær fæddar 1969 og báðar léku þær allan sinn feril með Keflavík. Þar fylgdust þær að en einnig í íslenska landsliðinu. 

Á meðfylgjandi mynd fagna þær sigri í bikarkeppninni árið 1990 en Björg er til vinstri og Anna María til hægri. Myndina tók Einar Falur Ingólfsson sem hefur myndað og skrifað fyrir Morgunblaðið og mbl.is í áratugi. 

Keflavík sigraði þá í bikarkeppninni þriðja árið í röð og voru þær Björg og Anna María í stórum hlutverkum eins og alla jafna. Keflavík burstaði Hauka í úrslitaleiknum 62:29 og skoraði Anna María 19 stig og Björg skoraði 14 en hún var fyrirliði Keflavíkur á þessu keppnistímabili. 

„Ég vil sérstaklega þakka áhorfendum fyrir góðan stuðning,“ sagði Björg meðal annars í samtali við Vöndu Sigurgeirsdóttur að leiknum loknum en umfjöllunin birtist í Morgunblaðinu 23. mars 1990. 

Með þær Björgu og Önnu innanborðs var velgengni Keflvíkinga nánast með ólíkindum. Á árunum 1988 – 1997 varð Keflavíkurliðið sjö sinnum Íslandsmeistari og átta sinnum bikarmeistari. 

Björg Hafsteinsdóttir lék 33 A-landsleiki og skoraði 270 stig.

Anna María Sveinsdóttir lék 51 A-landsleik og skoraði 652 stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert