Stjörnukonur eru komnar áfram í átta liða úrslit VÍS-bikars kvenna í körfubolta eftir 75:68-sigur á Ármanni á heimavelli í kvöld. Bæði lið leika í 1. deild.
Stjarnan var með yfirhöndina allan tímann en munurinn varð mestur þrettán stig. Ármann beit frá sér í fjórða og síðasta leikhlutanum, en forskot Stjörnunnar var ekki í mikilli hættu.
Myia Starks skoraði 28 stig fyrir Stjörnuna og þær Diljá Ögn Lárusdóttir og Jóhanna Björk Sveinsdóttir skoruðu tíu stig hvor. Jónína Þórdís Karlsdóttir skoraði 22 stig fyrir Ármann og Schekinah Bimpa skoraði 20 stig og tók 15 fráköst.