Chicago Bulls vann sinn fimmta leik af sex í NBA-deildinni í körfuknattleik á tímabilinu þegar liðið hafði betur gegn Utah Jazz, 107:99, í nótt.
Eftir að hafa unnið fyrstu fjóra leiki sína tapaði Chicago fyrir New York Knicks í síðustu umferð með minnsta mun, en brást við því með góðum leik í nótt.
DeMar DeRozan hefur farið á kostum í byrjun tímabils og skoraði 32 stig fyrir Chicago í nótt. Skammt undan var svo samherji hans Zach LaVine með 26 stig.
Donovan Mitchell átti stórleik í liði Utah eins og hans er von og visa og skoraði 30 stig.
Þetta var fyrsta tap Utah á tímabilinu í fimmta leik liðsins.
New York hefur sömuleiðis farið frábærlega af stað á tímabilinu og er einnig með fimm sigra eftir fyrstu sex leikina.
Í nótt heimsótti liðið New Orleans Pelicans og vann sterkan 123:117 sigur.
RJ Barrett fór fyrir New York og skoraði 35 stig.
Litháinn Jonas Valanciunas var gífurlega öflugur í liði New Orleans og náði tvöfaldri tvennu er hann skoraði 27 stig og tók 14 fráköst.
Níu aðrir leikir fóru fram í NBA-deildinni í nótt.
Öll úrslit næturinnar:
Chicago - Utah 107:99
New Orleans - New York 117:123
Washington - Boston 115:112
Detroit - Orlando 110:103
Indiana - Toronto 94:97
Philadelphia - Atlanta 122:94
Memphis - Miami 103:129
Milwaukee - San Antonio 92:103
Golden State - Oklahoma 103:82
Minnesota - Denver 91:93
Phoenix - Cleveland 101:92