Chris Paul færði sig upp í þriðja sæti yfir flestar stoðsendingar í sögu NBA-deildarinnar í körfuknattleik þegar hann gaf 18 slíkar í 112:100 sigri Phoenix Suns gegn New Orleans Pelicans í nótt.
Paul, sem er 36 ára gamall, náði tvöfaldri tvennu er hann skoraði einnig 14 stig í leik næturinnar.
Með því að gefa 18 stoðsendingar í nótt fór Paul upp úr fimmta sæti yfir flestar stoðsendingar í það þriðja. Nú hefur hann gefið 10.346 stoðsendingar en er þó ansi langt frá því að komast enn ofar á listanum.
Jason Kidd, sem er í öðru sæti, gaf á sínum tíma 12.091 stoðsendingu í herbúðum Dallas Mavericks, Phoenix, New Jersey Nets og New York Knicks.
Í langefsta sætinu er svo John Stockton með 15.806 stoðsendingar á ferli sínum með Utah Jazz og er næsta ómögulegt að sjá nokkurn mann bæta það met í náinni framtíð.