Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkinga, var ómyrkur í máli eftir tap gegn Tindastóli í kvöld í Subway-deildinni þegar hann sagði sína menn hafa verið of lina á löngum köflum í leiknum.
Í því samhengi nefndi Benedikt að þeir hafi verið að mæta grjóthörðu liði Tindastóls og því þyrfti að mæta þeim á sama grundvelli.
Þetta væri ólíkt liðinu sem var að spila vel saman í upphafi móts.
Benedikt sagði að hann væri með töluvert meiri áhyggjur ef liðið ætti ekki nóg inni. Bæði leikmenn sem eru að spila eiga eitthvað inni og svo leikmenn sem eru að eiga við meiðsli eiga eftir að koma inn.