Grindavík aftur á toppinn

Kristófer Breki Gylfason átti stórleik fyrir Grindavík í kvöld.
Kristófer Breki Gylfason átti stórleik fyrir Grindavík í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Grindavík vann öruggan 100:82 sigur á nýliðum Breiðabliks þegar liðin mættust í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Subway-deildinni, í Grindavík í kvöld. Grindavík er þar með komið aftur á topp deildarinnar.

Tónninn var strax gefinn í fyrri hálfleik þegar Grindavík leiddi 30:19 að loknum fyrsta leikhluta. Í öðrum leikhluta bættu Grindvíkingar aðeins í og voru með 15 stiga forystu, 59:44, í leikhléi.

Grindvíkingar héldu einfaldlega áfram að velgja Blikum undir uggum í síðari hálfleik og náðu mest 27 stiga forystu, 76:49.

Eftir það náðu Blikar að laga stöðuna nokkuð en skaðinn var svo sannarlega skeður og unnu Grindvíkingar að lokum þægilegan 16 stiga sigur.

Spánverjinn Ivan Aurrecoechea fór einu sinni sem áður á kostum í liði Grindavíkur og skoraði 28 stig auk þess að taka sjö fráköst.

Skammt undan var Kristófer Breki Gylfason sem átti einnig frábæran leik og skoraði 26 stig fyrir Grindavík ásamt því að taka átta fráköst.

Sinisa Bilic var öflugur í liði Breiðabliks og náði tvöfaldri tvennu er hann skoraði 20 stig og tók tíu fráköst.

Everage Richardson var stigahæstur Blika með 21 stig og tók þá sjö fráköst.

Með sigrinum fer Grindavík sem áður segir aftur á topp deildarinnar, þar sem liðið er með 10 stig úr fyrstu sex leikjum sínum. Grindavík hefur þó leikið einum leik meira en flest önnur lið deildarinnar.

Breiðablik er áfram með 2 stig í neðri hlutanum eftir að hafa spilað sex leiki.

Gangur leiksins:: 3:4, 15:10, 22:19, 30:19, 39:25, 43:28, 54:40, 59:44, 68:49, 76:51, 81:59, 81:66, 83:70, 88:77, 92:79, 100:84.

Grindavík: Ivan Aurrecoechea Alcolado 28/7 fráköst, Kristófer Breki Gylfason 26/8 fráköst, Kristinn Pálsson 12/8 fráköst, Naor Sharabani 12/10 stoðsendingar, Elbert Clark Matthews 9/4 fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 6/6 fráköst, Bragi Guðmundsson 3, Magnús Engill Valgeirsson 2, Ólafur Ólafsson 2/8 fráköst/9 stoðsendingar.

Fráköst: 35 í vörn, 13 í sókn.

Breiðablik: Everage Lee Richardson 21/7 fráköst, Sinisa Bilic 20/10 fráköst, Árni Elmar Hrafnsson 15/6 stoðsendingar, Samuel Prescott Jr. 11/5 fráköst, Sveinbjörn Jóhannesson 6/8 fráköst, Hilmar Pétursson 6/4 fráköst/5 stoðsendingar, Danero Thomas 5.

Fráköst: 27 í vörn, 11 í sókn.

Dómarar: Ísak Ernir Kristinsson, Gunnlaugur Briem, Sigurður Jónsson.

Áhorfendur: 150

Ivan Aurrecoechea í leik með Þór frá Akureyri á síðasta …
Ivan Aurrecoechea í leik með Þór frá Akureyri á síðasta tímabili. Hann hefur reynst Grindavík afar drjúgur á þessu tímabili. Ljósmynd/Þórir Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert