Skagafjarðarvörnin skilaði sigrinum

Mario Matasovic stekkur upp að körfunni í kvöld. Viðar Ágústsson …
Mario Matasovic stekkur upp að körfunni í kvöld. Viðar Ágústsson reynir að stöðva hann. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Njarðvíkingar og Tindastólsmenn mættust í enn einum hörkuleik Subway-deildar karla. Liðin voru jöfn að stigum fyrir þennan leik og eins og búast mátti við reyndi töluvert á bæði lið að landa sigrinum.

Járn var í járn í hálfleik þar sem bæði lið höfðu skorað 41 stig. Það voru svo gestirnir úr Skagafirðinum sem stóðu uppi sem sigurvegarar eftir 40 mínútna leik. 83:74 lokatölur kvöldsins og þær varpa svo sannarlega góðu ljósi á gang þessa leiks.

Sú staðreynd að þessi sóknarmaskína sem Njarðvíkingar eru hafi aðeins skorað 74 stig á heimavelli gefur glögglega í ljós að það var varnarvinna Tindastóls sem vó gríðarlega þungt í þessum mikilvæga sigri þeirra. 

Þeir spiluðu fast á Njarðvíkurliðið og hvað eftir annað þvinguðu þeir sóknarlotur Njarðvíkinga í erfið skot. Hugmyndasnauðir Njarðvíkingar áttu sóknarlega fá svör og í ofanálag voru jafnvel auðveld skot þeirra ekki að detta niður. 

En sigur Tindastóls var heilt yfir sanngjarn og þeir unnu heimavinnu sína vel fyrir þennan leik gegn bikarmeisturunum. Eftir að hafa siglt inn í mótið með fullfermi eftir þrjá leiki hafa Njarðvíkingar nú komið til hafnar með galtómar lestarnar. 

Áhöfnin er á köflum lin og þá sérstaklega varnarmegin þar sem þeir áttu í mesta basli með að halda mönnum fyrir framan sig. Og ef litið er ti lbaka þá hafa þessir þrír tapleikir allir snúist um að þeir hafa fengið á sig grimman varnarleik sem þeir hafa ekki getað svarað fyrir. 

Nú tekur við tveggja vikna hlé í deildinni þannig að liðin geta farið yfir sinn leik. Af leikmönnum þetta kvöldið er kannski ekkert hægt að taka út einn einstakling en þá fremur hægt að nefna þá gríðarlega flottu liðsheild sem Tindastól sýndi megnið af kvöldinu. 

Hinsvegar söknum við gríðarlega hins léttleikandi liðs Njarðvíkinga sem hóf þessa leiktíð af miklum krafti. 

Gangur leiksins:: 2:5, 5:12, 10:24, 17:28, 19:33, 24:37, 33:39, 41:41, 48:47, 50:51, 56:58, 62:65, 66:72, 66:73, 70:79, 74:83.

Njarðvík: Fotios Lampropoulos 18/8 fráköst, Dedrick Deon Basile 15/4 fráköst, Mario Matasovic 11/7 fráköst, Veigar Páll Alexandersson 9/4 fráköst, Nicolas Richotti 9/7 fráköst/9 stoðsendingar/3 varin skot, Maciek Stanislav Baginski 7, Ólafur Helgi Jónsson 5/4 fráköst.

Fráköst: 25 í vörn, 10 í sókn.

Tindastóll: Javon Anthony Bess 22, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 15/10 fráköst/3 varin skot, Taiwo Hassan Badmus 14/9 fráköst, Sigtryggur Arnar Björnsson 13, Thomas Kalmeba-Massamba 9/7 fráköst/5 stoðsendingar, Pétur Rúnar Birgisson 5/4 fráköst, Axel Kárason 3, Viðar Ágústsson 2.

Fráköst: 29 í vörn, 11 í sókn.

Dómarar: Davíð Tómas Tómasson, Jakob Árni Ísleifsson, Helgi Jónsson.

Njarðvík 74:83 Tindastóll opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert