Tveimur leikjum af fimm sem fram áttu að fara í 1. deild karla í körfuknattleik í kvöld hefur verið frestað vegna kórónuveirusmita.
Topplið Hauka átti að mæta Álftanesi en þar sem smit hafa komið upp í leikmannahópi Álftaness hefur leiknum verið frestað.
Sama er að segja af Vesturlandsslag ÍA og Skallagríms sem fram átti að fara á Akranesi í kvöld en honum var frestað þar sem íþróttahúsum á Akranesi hefur verið lokað fram yfir helgi vegna mikillar aukninga smita í samfélaginu á Akranesi. Vegna þess þurfti einnig að fresta fjölliðamóti í 7. flokki drengja sem fram átti að fara á Akranesi um helgina.