New York Knicks hafði betur gegn ríkjandi meisturum Milwaukee Bucks, 113:98, eftir magnaðan viðsnúning í leik liðanna í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.
Milwaukee hóf leikinn af krafti og komst í 19:40.
Eftir það tóku gestirnir frá New York leikinn yfir. Með góðum öðrum leikhluta náði liðið að minnka muninn niður í sjö stig, 56:63.
Síðari hálfleikurinn var svo alfarið eign New York og öruggur 15 stiga sigur niðurstaðan.
Julius Randle átti stórleik fyrir New York þegar hann náði tvöfaldri tvennu. Skoraði hann 32 stig og tók 12 fráköst.
Derrick Rose kom þá sterkur inn af varamannabekk New York og skoraði 23 stig.
Grikkinn Giannis Antetokounmpo var líkt og hér um bil alltaf stigahæstur Milwaukee-manna með 25 stig að þessu sinni.
Kevin Durant átti þá stórleik fyrir Brooklyn Nets þegar hann skoraði 29 stig í 96:90 sigri gegn lánlausu liði Detroit Pistons.
Damian Lillard var afar ólíkur sjálfum sér og skoraði aðeins fjögur stig þegar lið hans Portland Trail Blazers unnu góðan 110:106 sigur á Indiana Pacers.
Lillard er venjulega stigahæstur Portland-manna eða að minnsta kosti á meðal þeirra en hitti aðeins úr tveimur af 13 skottilraunum sínum. Þar af klikkaði hann á öllum sex þriggja stiga skotum sínum. Lillard tókst þó að gefa 11 stoðsendingar.
Sem betur fer stigu liðsfélagar hans upp þar sem CJ McCollum skoraði 27 stig og Norman Powell var með 25 stig.
Alls fóru níu leikir fram í NBA-deildinni í nótt.
Öll úrslit næturinnar:
Milwaukee – New York 98:113
Detroit – Brooklyn 90:96
Portland – Indiana 110:106
Orlando – San Antonio 89:102
Washington – Memphis 115:87
Toronto – Cleveland 101:102
Minnesota – LA Clippers 84:104
Golden State – New Orleans 126:85
Sacramento – Charlotte 140:110