Friðrik Ingi Rúnarsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari karla í körfuknattleik, er tekinn við þjálfun karlaliðs ÍR sem leikur í Subway-deildinni.
ÍR tilkynnti um ráðninguna á samfélagsmiðlum í dag. Friðrik á að baki langan og farsælan feril sem þjálfari hérlendis. Síðast stýrði hann Þór frá Þorlákshöfn tímabilið 2019-2020 en hefur einnig þjálfað Njarðvík, Grindavík, KR og Keflavík fyrir utan A-landsliðið.
Njarðvík varð tvívegis Íslandsmeistari undir hans stjórn og Grindavík einu sinni. Friðrik hefur sjö sinnum farið með lið sín í úrslitaleiki Íslandsmótsins, oftar en nokkur annar þjálfari.
Ísak Máni Wium og Sveinbjörn Claessen verða Friðriki til aðstoðar hjá ÍR.
ÍR er með 2 stig eftir fyrstu fimm leikina í deildinni eins og Breiðablik og Vestri en liðin eru í 9., 10. og 11. sæti. Borce Ilievski lét af störfum sem þjálfari ÍR á dögunum.