Höttur lenti í óvæntum vandræðum með Skallagrím í kvöld þegar liðin mættust í 1. deild karla í körfuknattleik á Egilsstöðum.
Höttur var með ágæta forystu í hálfleik, 46:34, en í seinni hálfleiknum tóku Borgnesingar vel við sér og minnkuðu muninn í fimm stig undir lok þriðja leikhluta. Eftir það voru Hattarmenn í mesta brasi við að hrista þá af sér á ný, Skallagrímur minnkaði muninn tvisvar í þrjú stig, í seinna skiptið í 85:82 þegar 90 sekúndur voru eftir af leiknum, en þá náðu Héraðsbúar að skora fimm stig í röð og tryggja sér sigurinn. Lokatölur urðu 92:87.
Höttur er því áfram með fullt hús stiga á toppi deildarinnar, með 14 stig eftir sjö leiki. Skallagrímur er í næstneðsta sætinu með tvö stig eftir sex leiki.
Arturo Fernández skoraði 25 stig fyrir Hött, Timothy Guers 17 og Matej Karlovic 14.
Bryan Anthony Battle átti stórleik með Skallagrími en hann skoraði 41 stig, tók 8 fráköst og átti 7 stoðsendingar. Simun Kovac skoraði 12 stig og tók 14 fráköst og Bergþór Ægir Ríkharðsson skoraði 10 stig.
Gangur leiksins: 8:4, 13:8, 20:9, 22:18, 30:21, 34:27, 38:32, 46:34, 54:36, 58:38, 62:50, 67:62, 69:65, 78:70, 83:77, 92:87.
Höttur: Arturo Fernandez Rodriguez 25/7 fráköst, Timothy Guers 17/5 fráköst/6 stoðsendingar, Matej Karlovic 14, Juan Luis Navarro 13/18 fráköst, David Guardia Ramos 12/6 fráköst/3 varin skot, Adam Eiður Ásgeirsson 11.
Fráköst: 29 í vörn, 11 í sókn.
Skallagrímur: Bryan Anthony Battle 41/8 fráköst/7 stoðsendingar, Simun Kovac 12/14 fráköst/5 stoðsendingar, Bergþór Ægir Ríkharðsson 10, Arnar Smári Bjarnason 9, Marinó Þór Pálmason 6, Ólafur Þorri Sigurjónsson 5, Almar Orn Bjornsson 4.
Fráköst: 26 í vörn, 2 í sókn.
Dómarar: Stefán Kristinsson, Þórlindur Kjartansson.