Elvar með 28 stig í grátlegu tapi

Elvar Már Friðriksson í leik með íslenska landsliðinu fyrr á …
Elvar Már Friðriksson í leik með íslenska landsliðinu fyrr á árinu. Ljósmynd/FIBA

Landsliðsbakvörðurinn Elvar Már Friðriksson fór á kostum í naumu tapi liðs hans, Antwerp Giants frá Belgíu, gegn gríska liðinu Ionikos í Evrópubikar FIBA í körfuknattleik karla í kvöld.

Elvar Már gerði sér lítið fyrir og skoraði 28 stig og var stigahæstur leikmanna Antwerp í leiknum.

Ekki nóg með það þá var hann nálægt því að ná tvöfaldri tvennu þar sem hann gaf átta stoðsendingar fyrir liðsfélaga sína og tók þá einnig sex fráköst.

Antwerp tapaði að lokum 87:90 eftir að hafa leitt 87:85 þegar afar skammt lifði leiks.

Antwerp er áfram á toppi F-riðils keppninnar eftir tapið en Sporting, sem á leik til góða að auki, og Ionikos eru skammt undan.

Antwerp er með 8 stig eftir fimm leiki af sex, Sporting með 7 eftir fjóra leiki, Ionikos með 7 eftir fimm leiki og Belfius Mons með 5 stig eftir fjóra leiki. Það er því allt enn í járnum í riðlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert