Friðrik Ingi Rúnarsson hefur ákveðið að taka fram spjaldið og tússpennana sem körfuboltaþjálfarar nota óspart í leikhléum. Í gær var tilkynnt að ÍR hefði samið við Friðrik um að stýra karlaliði félagsins út keppnistímabilið í úrvalsdeildinni í körfuknattleik, Subway-deildinni. Forverinn í starfi, Borce Ilievski, sagði upp fyrir um tveimur vikum.
„Þetta er spennandi verkefni en krefjandi á sama tíma. Kannski er óvenjulegt að lið standi uppi þjálfaralaust þetta snemma á tímabilinu en þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn sem það gerist í íþróttunum og verður ekki það síðasta. ÍR-liðið hefur aðeins verið að ströggla,“ sagði Friðrik Ingi þegar Morgunblaðið náði tali af honum í gær en hann var þá á leið í Seljaskólann til að stýra sinni fyrstu æfingu hjá ÍR.
Upp úr krafsinu kemur að Friðrik á þessar líka fínu minningar úr íþróttahúsinu í Seljaskóla. „Ég var að rifja upp að ég fór með Njarðvík í úrslit í Seljaskóla þegar ég var 16 ára gamall og var að hefja þjálfaraferilinn. Ég var þá að þjálfa minnibolta 12 ára og yngri. Þá hampaði ég mínum fyrsta Íslandsmeistaratitli sem þjálfari. Þetta var árið 1984 og Hermann Hauksson lék með ÍR og Jón Arnar Ingvarsson lék með Haukum svo einhverjir séu nefndir. Þetta er skemmtilegt að rifja upp núna,“ sagði Friðrik en þá voru enn sex ár í að Steinar Þór Guðjónsson, formaður körfuknattleiksdeildar ÍR, kæmi í heiminn.
Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.