KR sigraði Stjörnuna 98:90 eftir framlengingu í frábærum leik á Meistaravöllum í Subway-deild karla í körfuknattleik í kvöld.
KR byrjaði leikinn af rosalegum krafti og komust í 9:0 og 17:6. Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði KR fór fyrir sínu liði sem spilaði rosalega vörn og hitti vel í fyrsta leikhluta. Einnig verður að nefna framlag hins unga Almars Orra Atlasonar sem setti þriggja stiga körfu rétt eftir að hann kom inn á og spilaði svo frábæra vörn gegn stóru mönnum Stjörnunnar. Stjörnumenn hittu illa í fyrsta leikhluta en flest öll skotin voru of stutt. Þrátt fyrir allt var munurinn ekki nema sjö stig eftir fyrsta leikhluta, en hann hefði getað verið mun meiri.
Í öðrum leikhluta bitu Stjörnumenn svo enn frekar frá sér. Tómas Þórður Hilmarsson og Arnþór Freyr Guðmundsson komu með aukinn kraft af bekknum og Robert Eugene Turner fór einnig að spila betur. Munurinn hélst þó svipaður allt þar tvær og hálf mínúta var til hálfleiks. Þá setti Brynjar Þór niður þrist fyrir heimamenn sem reyndust þeirra síðustu stig í fyrri hálfleik. Eftir það skoruðu gestirnir átta stig í röð og minnkuðu muninn í tvö stig. Staðan því 37:35 í hálfleik.
Robert Turner kom gestunum yfir snemma í þriðja leikhluta og við það virtust Stjörnumenn eflast. Turner og Shawn Hopkins stigu upp og Stjarnan jók forskot sitt. Þórir Guðmundur Þorbjarnarson og Shawn Glower sáu til þess að heimenn voru þó ekki langt undan þegar þriðja leikhluta lauk. Staðan fyrir fjórða leikhluta því 62:55, gestunum í vil.
Fjórði leikhluti hófst eins og sá þriðji en Stjörnumenn leiddu og börðust vel til að halda forskotinu. Þórir lék á als oddi fyrir KR og sá nánast einn um stigaskor þeirra á meðan stigin komu úr öllum áttum hjá Stjörnunni. Þegar leið á leikhlutann fóru heimamenn þó að saxa á forskotið og þegar 27 sekúndur voru eftir jafnaði Björn Kristjánsson leikinn í 77:77 með fallegri þriggja stiga körfu.
Arnar Guðjónsson tók þá leikhlé og stillti upp í sókn. Robert Turner dripplaði boltanum upp, leyfði klukkunni að tifa og tók svo hetjulegt skot sem fór ofaní. Dómararnir gáfu merki um þriggja stiga körfu, Helgi Már tók leikhlé en á meðan leikhléinu stóð breyttu dómararnir körfunni í tveggja stiga. KR fór í sókn, Shawn Glover fékk boltann og jafnaði leikinn þegar þrjár sekúndur voru eftir, 79:79. Þann tíma náðu gestirnir ekki að nýta sér og því var framlengt.
Í framlengingunni var allt í járnum. KR voru þremur stigum yfir þegar minna en mínúta var eftir. Þá var brotið á Brynjari Þóri Björnssyni og Arnar Guðjónsson þjálfari Stjörnunnar gjörsamlega trylltist. Fyrir viðbrögð sín var Arnar rekinn út úr húsi og KR fengu fjögur vítaskot. Af þeim setti Brynjar þrjú skot niður og kláraði leikinn. Lokatölur 98:90 sigur KR.
Stigahæstur hjá KR var Shawn Glover með 33 stig, en hann tók einnig 15 fráköst. Þórir Guðmundur Þorbjarnarson var næstur með 28 stig og einnig 15 fráköst. Hjá Stjörnunni var Robert Turner stigahæstur með 36 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar. Tómas Þórður Hilmarsson kom næstur með 17 stig.
Með sigrinum fara KR-ingar upp að hlið Vals í fimmta sæti deildarinnar með átta stig eftir sex leiki. Þeir mæta ÍR á útivelli í næsta leik. Stjarnan er áfram í áttunda sæti deildarinnar með fjögur stig eftir sex leiki. Næsti leikur þeirra er heimaleikur gegn Tindastóli.
Meistaravellir, Subway deild karla, 12. nóvember 2021.
Gangur leiksins:: 7:0, 13:4, 20:8, 20:13, 27:13, 31:22, 37:27, 37:35, 42:43, 45:50, 53:57, 55:62, 63:68, 65:72, 72:74, 79:79, 86:87, 98:90.
KR: Shawn Derrick Glover 33/15 fráköst, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson 28/15 fráköst/8 stoðsendingar, Brynjar Þór Björnsson 18, Veigar Áki Hlynsson 9/8 fráköst, Björn Kristjánsson 7/7 fráköst/5 stoðsendingar, Almar Orri Atlason 3.
Fráköst: 37 í vörn, 11 í sókn.
Stjarnan: Robert Eugene Turner III 36/9 fráköst/6 stoðsendingar/5 stolnir, Tómas Þórður Hilmarsson 17/11 fráköst, Shawn Dominique Hopkins 10/10 fráköst, Gunnar Ólafsson 8/8 fráköst/5 stoðsendingar, David Gabrovsek 8/10 fráköst, Hilmar Smári Henningsson 7/9 fráköst, Arnþór Freyr Guðmundsson 4.
Fráköst: 33 í vörn, 26 í sókn.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Ísak Ernir Kristinsson, Jakob Árni Ísleifsson.
Áhorfendur: 112