Þórir Guðmundur Þorbjarnarson átti stórleik í 98:90 sigri KR á Stjörnunni í Subway-deild karla í körfubolta í kvöld. Þórir endaði leikinn með 28 stig, 15 fráköst og 8 stoðsendingar. Hann var því einungis tveimur stoðsendingum frá því að ná svokallaðri „þrefaldri tvennu“.
„Ég er hrikalega ánægður, þetta var æðislegur leikur. Við erum fámennir, það vantar þrjá leikmenn sem hafa spilað mikið og ég er mjög glaður að við höfum náð að sýna svona karakter. Við erum átta stigum undir þegar það er lítið eftir og komum til baka, það er mjög sætt.“
KR var í vandræðum þegar lítið var eftir af leiknum en gerðu mjög vel í að bjarga sér fyrir horn og koma leiknum í framlengingu.
„Þetta var bara trúin. Bara ein sókn í einu. Þeir voru að gera okkur erfitt fyrir inni í teig með sóknarfráköstum en undir lokin náum við að taka þessi fráköst sem skiptu mestu máli.“
Eins og áður kom fram átti Þórir sannkallaðan stórleik í kvöld.
„Ég er gríðarlega ánægður með sjálfan mig og liðið í heild sinni. Þetta var mjög erfiður leikur en þá stíga menn upp og spila frábærlega. Veigar [Áki Hlynsson] spilar frábæra vörn á Robert Turner þrátt fyrir að hann skori 36 stig, telur af honum boltanum í lokin og skorar mikilvæga körfu. Ég er mjög ánægður með alla sem spiluðu í þessum leik og alla sem eru partur af þessu liði.“