Steph Curry var samur við sig og fór á kostum þegar sjóðheitt lið hans Golden State Warriors gjörsigraði Chicago Bulls í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.
Curry skoraði 40 stig, þar af níu þriggja stiga körfur, í afar öruggum 119:93-sigri.
Zach LaVine var stigahæstur Chicago-manna með 23 stig.
Golden State er langsamlega besta lið deildarinnar um þessar mundir enda búið að vinna 11 af fyrstu 12 leikjum sínum á tímabilinu.
Chicago hefur einnig farið vel af stað en ekkert í líkingu við Golden State. Chicago hefur unnið átta af fyrstu 12 leikjum sínum.
LA Lakers mátti þá þola 83:107-stórtap gegn Minnesota Timberwolves í Staples Center-höllinni í Los Angeles í nótt.
Afleitur þriðji leikhluti þar sem Lakers skoraði aðeins 12 stig varð þeim einna helst að falli þar sem Minnesota skoraði 40 stig í leikhlutanum og stakk þannig af.
Karl-Anthony Towns var stigahæstur leikmanna Minnesota með 29 stig.
Anthony Davis var stigahæstur Lakers-manna með 22 stig, en gamla brýnið LeBron James lék ekki með liðinu í nótt vegna meiðsla.
Alls fóru 11 leikir fram í NBA-deildinni í nótt.
Öll úrslit næturinnar:
Golden State – Chicago 119:93
LA Lakers – Minnesota 83:107
Boston – Milwaukee 122:113
Charlotte – New York 104:96
Cleveland – Detroit 98:78
Houston – Portland 92:104
Memphis - Phoenix 94:119
New Orleans – Brooklyn 112:120
Oklahoma – Sacramento 105:103
San Antonio – Dallas 109:123
Denver – Atlanta 105:96