Körfuknattleikssamband Íslands, KKÍ, hefur tilkynnt að frítt verði inn á leik Íslands gegn Ungverjalandi í undankeppni EM 2023 í körfuknattleik kvenna á Ásvöllum í Hafnarfirði á morgun.
Subway, aðalstyrktaraðili efstu deilda karla og kvenna hér á landi, hefur ákveðið að bjóða áhorfendum frítt á leikinn vegna þeirrar óvissu sem hefur ríkt um hvort þurfi að framvísa neikvæðri niðurstöðu úr hraðprófi við kórónuveirunni til þess að fá að berja leikinn augum.
Til að taka af allan vafa hefur KKÍ tilkynnt að hægt verði að taka á móti áhorfendum án hraðprófa á leikinn gegn Ungverjalandi á morgun. Nánar tiltekið þarf ekki að framvísa hraðprófi fyrir leikinn fyrir fullbólusetta einstaklinga.
Aðeins 500 miðar eru í boði, allt frímiðar, og er hægt að nálgast þá í miðasölusmáforritinu Stubbi með því að fara undir „Viðburði“ og sækja sér svo miða.