Með flestar þriggja stiga körfur allra

Steph Curry hefur ástæður til að gleðjast þessa dagana.
Steph Curry hefur ástæður til að gleðjast þessa dagana. AFP

Steph Curry sló í nótt met yfir flestar þriggja stiga körfur í öllum leikjum á vegum NBA-deildarinnar í körfuknattleik, þar á meðal leiki í úrslitakeppni, þegar hann setti niður níu slíkar í stórsigri Golden State Warriors gegn Chicago Bulls í nótt.

Curry hefur nú skorað 3.366 þriggja stiga körfur og komst þar upp fyrir goðsögnina Ray Allen, sem skoraði 3.358 slíkar körfur á ferli sínum.

Allen á enn metið í deildinni, þ.e. að úrslitakeppninni frátalinni, en Curry nálgast það þó óðfluga.

Allen skoraði 2.973 þriggja stiga körfur í deildinni á ferli sínum en Curry hefur skorað úr 2.896 þriggja stiga körfum.

Það munar því aðeins 77 körfum á þeim og því má vænta þess að Curry slái metið á þessu tímabili.

Hann hefur verið í frábæru formi á tímabilinu og skoraði 40 stig í nótt, fjórum dögum eftir að hafa skorað 50 stig gegn Atlanta.

Hefur Curry alls skorað 40 stig eða meira 52. sinnum á ferli sínum í NBA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert