Antwerp Giants vann í kvöld 91:69-stórsigur á útivelli gegn Okapi Aalst í efstu deild Belgíu í körfubolta.
Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson átti stórleik fyrir Antwerp og var stigahæstur í sínu liði með 21 stig. Elvar gaf auk þess 11 stoðsendingar og tók tvö fráköst á rétt rúmum 32 mínútum.
Antwerp hefur leikið vel á leiktíðinni og er liðið í öðru sæti deildarinnar með 15 stig, einu stigi minna en topplið Oostende.