„Það var gríðarlega svekkjandi að tapa þessum leik gegn Rúmeníu en á sama tíma var margt jákvætt í okkar leik líka,“ sagði Sara Rún Hinriksdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í körfuknattleik, í samtali við Morgunblaðið.
Íslenska liðið þurfti að sætta sig við 59:65-tap gegn Rúmenum í C-riðli undankeppni EM 2023 í Búkarest á fimmtudaginn. Margir leikmenn íslenska liðsins voru að stíga sín fyrstu skref með landsliðinu en Sara Rún var afar öflug í leiknum, skoraði 17 stig og tók ellefu fráköst.
Ísland mætir Ungverjalandi á Ásvöllum í Hafnarfirði annað kvöld en Ungverjaland tapaði með fjögurra stiga mun gegn Spáni í Szekszard í Ungverjalandi á fimmtudaginn.
„Leikurinn við Ungverjaland verður mun erfiðari. Við hittum ungverska liðið á Keflavíkurflugvelli og þær eru bæði stórar og stæðilegar þannig að ég á von á hörkuleik á móti þeim. Á sama tíma verður það skemmtileg áskorun að mæta þeim,“ sagði Sara.
Viðtalið í heild er í Morgunblaðinu í dag.