Benedikt Guðmundsson, þjálfari Íslands, var niðurlútur eftir 115:58 tap gegn Ungverjalandi í undankeppni EM í körfubolta í kvöld.
„Það er erfitt að tapa svona stórt, þetta reynir á. Manni líður ekki vel eftir svona, maður er að reyna að meðtaka þetta, átta sig á hlutunum og vinna úr tilfinningunum.“
„Við vissum alveg út í hvað við vorum að fara, að þetta yrði gríðarlega erfiður leikur. Við erum með reynslulítið lið í dag, það hefði náttúrlega hjálpað ef við hefðum verið með allar drottningarnar. Ég er samt sem áður mjög stoltur af þessum hópi, við vorum í 50/50 leik á fimmtudaginn en áttum aldrei séns í dag. Við erum klárlega langt á eftir þessum heimsklassa landsliðum eins og við vorum að spila við í dag, það verður bara að viðurkennast.“
Ungt og reynslulítið íslenskt landslið á hrós skilið fyrir baráttuna og viljann sem þær sýndu í leiknum.
„Það er erfitt að þylja upp eitthvað jákvætt eftir svona rassskellingu en ef maður horfir til framtíðar þá eru margir reynslumeiri leikmenn sem við höfðum ekki tök á að velja í dag. Ég held að í þessum glugga höfum við aukið breiddina í íslenskum kvennakörfubolta. Við gefum fleiri leikmönnum reynslu og stærri hlutverk, sem mun nýtast okkur í framtíðinni. Það er erfitt að vera að tala um framtíðina strax eftir svona leik en ég held að þetta fari klárlega í reynslubankann. Við getum svo tekið út úr reynslubankanum eftir einhvern tíma.“
„Við þurfum alltaf að hafa trú þegar við mætum í þessa leiki, að við getum gert eitthvað. Við megum ekki tækla þá eins og við séum búin að tapa fyrir fram. Þetta snýst um frammistöðu líka. Mér fannst frammistaðan í dag vera allt í lagi á köflum, en svo fannst mér við brotna og það má ekki gerast á móti þessum þjóðum.“