Valencia varð í kvöld fyrsta liðið á tímabilinu til að vinna Barcelona í spænsku 1. deildinni í körfubolta. Lokatölur í Barcelona urðu 87:79, Valencia í vil.
Martin Hermannsson lék ekki með Valencia vegna vöðvameiðsla í vinstri fæti.
Real Madrid og Barcelona eru nú jöfn á toppnum með níu sigra og eitt tap í tíu leikjum. Valencia er með sex sigra og fjögur töp í sjöunda sæti en liðið hefur unnið þrjá leiki í röð í öllum keppnum.
Ásamt því að spila í deildarkeppninni heimafyrir leikur Valencia einnig í Evrópubikarnum, sem er næststerkasta keppni álfunnar. Þar er liðið í fjórða sæti í sínum riðli með tvo sigra og tvö töp.
Uppfært:
Martin staðfesti við mbl.is í kvöld að hann væri með álagsmeiðsli í kálfa sem hefðu getað versnað ef hann hefði spilað. Hann kvaðst stefna að því að spila næsta leik liðsins á miðvikudaginn kemur en Valencia tekur þá á móti JL Bourg frá Frakklandi í Evrópubikarnum.