„Við vorum ömurlegir“

Anthony Davis í leiknum gegn Minnesota í fyrrinótt.
Anthony Davis í leiknum gegn Minnesota í fyrrinótt. AFP

Anthony Davis, leikmaður LA Lakers í NBA-deildinni, sparaði ekki stóru orðin í garð liðsins eftir að það steinlá á heimavelli gegn Minnesota Timberwolves í fyrrinótt.

Minnesota vann þar 107:83 stórsigur Staples Center-höllinni í Los Angeles.

Afleitur þriðji leikhluti þar sem Lakers skoraði aðeins 12 stig varð þeim einna helst að falli þar sem Minnesota skoraði 40 stig í leikhlutanum og stakk þannig af.

„Við vorum ömurlegir. Við spiluðum engan varnarleik og gátum ekki skorað. Það er ekki bara í þessum þriðja leikhluta, þetta er í hverjum einasta þriðja leikhluta sem við höfum spilað á tímabilinu.

Við mætum hægir til leiks í þeim, erum kærulausir sóknarlega og varnarlega. Við þurfum að taka okkur saman í andlitinu. Af hverju gerist þetta? Ég get ekki sagt til um það en við verðum að gera betur,“ sagði Davis eftir leikinn um slælegar frammistöður í þriðja leikhluta á tímabilinu.

Eftir að Lakers styrkti lið sitt vel í sumar var því víða spáð góðu gengi á tímabilinu en spilamennska liðsins í byrjun þess hefur ekki rennt stoðum undir þær spár.

„Við verðum að ákveða hverjir við viljum vera. Meistaralið? Það erum við ekki á þessari stundu. Við erum ekki að fara að vinna meistaratitil eins og við erum að spila núna.

Við verðum að vera betri og sjá til þess að gerum meira til þess að vinna leiki á heimavelli og bara yfir höfuð. Þetta var vandræðalegt,“ bætti hann við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert