Charlotte Hornets varð í nótt aðeins annað liðið til að sigra Golden State Warriors, sem hefur verið næsta óstöðvandi í NBA-deildinni í körfuknattleik á tímabilinu til þessa.
Charlotte hafði að lokum betur, 106:102, eftir æsispennandi leik.
Allt var í járnum nánast allan leikinn og var staðan 102:102 þegar tæpar 45 sekúndur voru eftir á leikklukkunni.
Miles Bridges skoraði tveggja stiga körfu fyrir Charlotte skömmu síðar en Kevon Looney klúðraði báðum vítaskotum sínum fyrir Golden State í næstu sókn.
Charlotte fékk þá tvö vítaskot sem Terry Rozier setti bæði niður og tryggði nauman fjögurra stiga sigur.
Bridges og Rozier voru á meðal stigahæstu leikmanna Charlotte þar sem sá fyrrnefndi skoraði 22 stig og sá síðarnefndi 20 stig. LaMelo Ball skoraði þá 21 stig.
Í liði Golden State var Andrew Wiggins stigahæstur með 28 stig og þar á eftir var stórstjarnan Steph Curry með 24 stig.
Curry hitti þó á heildina litið afar illa þar sem hann hitti aðeins úr sjö af 22 skotum sínum úr opnum leik, þar af setti hann aðeins niður þrjár þriggja stiga körfur úr 13 tilraunum.
Sex aðrir leikir fóru fram í NBA-deildinni í gærkvöldi og í nótt.
Öll úrslitin:
Charlotte – Golden State 106:102
LA Lakers – San Antonio 114:106
Atlanta – Milwaukee 120:100
Houston – Phoenix 89:115
Oklahoma – Brooklyn 96:120
Denver – Portland 124:95
LA Clippers – Chicago 90:100