Haukar styrkja sig

Emil Barja og félagar í Haukum hafa fengið liðstyrk.
Emil Barja og félagar í Haukum hafa fengið liðstyrk. Mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Körfuknattleiksmaðurinn Bragi Guðmundsson er genginn til liðs við Hauka. Kemur hann frá uppeldisfélagi sínu Grindavík.

Samkvæmt tilkynningu körfuknattleiksdeildar Grindavíkur mun Bragi leika með Haukum út yfirstandandi tímabil en Karfan.is kveðst hins vegar hafa heimildir fyrir því að hann hafi gert tveggja ára samning við Hafnarfjarðarliðið, sem leikur í næstefstu deild.

„Bragi, sem er 18 ára gamall, óskaði eftir því að fá að skipta yfir í Hauka með það fyrir augum að fá aukinn leiktíma á yfirstandandi keppnistímabili. Stjórn kkd. Grindavíkur hefur orðið við bón Braga og hefur hann því haft félagaskipti yfir í Hauka.

Bragi hefur leikið tæpar 8 mínútur að meðaltali í leik í Subway-deildinni í vetur og átt góðar innkomur í leiki Grindavíkur í vetur.

Stjórn körfuknattleiksdeildar Grindavíkur óskar Braga góðs gengis með Haukum í vetur og vonumst við til að sjá hann aftur í gula búningnum með Grindavík í HS Orku-höllinni áður en langt um líður,“ sagði í tilkynningu körfuknattleiksdeildar Grindavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert