Slóveninn Luka Doncic, stjarna Dallas Mavericks í bandaríska körfuboltanum, fór meiddur af velli í sigri liðsins gegn Denver Nuggets í NBA-deildinni síðustu nótt.
Einungis 44 sekúndur voru eftir af leiknum þegar Doncic keyrði upp að körfunni og reyndi að setja niður sniðskot. Austin Rivers, leikmaður Denver, reyndi þá að verja skotið en lenti svo illa á vinstri ökkla Doncic.
Doncic hefur verið í vandræðum með ökklana á sér í gegnum tíðina og oft meiðst á þeim. Hann haltraði af velli eftir atvikið en ekki er vitað hversu lengi hann verður frá keppni.
Jason Kidd, þjálfari Dallas, gaf lítið upp um meiðslin eftir leik.
„Hann allavega kom sér af velli án aðstoðar. Ég held hann hafi snúið upp á vinstri ökklann svo við verðum bara að sjá til hvernig hann verður á morgun.“