Körfuknattleiksdeild Breiðabliks hefur tilkynnt að búið sé að segja upp samningi Bandaríkjakonunnar Chelsey Shumpert og þess í stað búið að semja við aðra Bandaríkjakonu, Micaelu Kelly.
Í fjórum leikjum í úrvalsdeild kvenna, Subway-deildinni, í haust var Shumpert með 24,3 stig, 5,5 fráköst og 5 stoðsendingar að meðaltali í leik.
Þrátt fyrir það þótti forráðamönnum körfuknattleiksdeildar Breiðabliks sem hún hafi ekki staðið undir væntingum.
„Breiðablik hefur sagt upp samningi við Chelsey Shumpert og samið við Micaela Kelly í staðinn. Chelsey þótti ekki standa undir væntingum og því var tekin sú ákvörðun að reyna að fá inn leikmann sem myndi skila meiru til liðsins, bæði sem leiðtogi og skorari,“ sagði í tilkynningu frá deildinni.
Um nýjan leikmann liðsins, Kelly, sagði í tilkynningunni:
„Kelly kemur úr Central Michican skólanum þar sem hún spilaði mjög vel og var leiðtogi í sínu liði í mörgum tölfræðiþáttum. Kelly skilaði 23,7 stigum, 5 fráköstum og 4,3 stoðsendingum að meðaltali í leik á lokaári sínu. Hún var með frábæra skotnýtingu, 58% og þar af 36% 3ja stiga nýtingu.“
Hún er væntanleg til landsins á morgun. Næsti leikur Breiðabliks í deildinni fer fram næstkomandi sunnudag í Smáranum kl. 20.15 gegn Fjölni.