Steph Curry átti enn einn stórleikinn þegar lið hans Golden State Warriors komst aftur á sigurbraut með því að hafa betur gegn Brooklyn Nets, 117:99, í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.
Curry skoraði 37 stig og hitti úr 12 af 19 skottilraunum sínum, þar af 9 af 14 þriggja stiga körfur.
James Harden var stigahæstur Brooklyn-manna með 24 stig og þar á eftir var Kevin Durant með 19 stig.
Golden State hefur farið best allra liða af stað í NBA-deildinni á þessu tímabili og hafa unnið 12 af fyrstu 14 leikjum sínum.
LA Clippers vann á sama tíma 106:92 sigur gegn San Antonio Spurs þar sem Paul George skoraði 34 stig fyrir Clippers.
Utah Jazz gjörsigraði þá Philadelphia 76ers. Bojan Bogdanovic gerði 27 stig fyrir Utah og Rudy Gobert náði tvöfaldri tvennu fyrir liðið er hann skoraði 15 stig og tók 17 fráköst.