Körfuknattleiksdeild ÍR hefur samið við króatíska bakvörðinn Igor Maric um að leika með liðinu í vetur.
Hinn 36 ára gamli Maric kemur með mikla reynslu inn í ÍR-liðið en hann lék síðast í heimalandinu. Á síðasta tímabili endaði lið hans, Cibona í 2. sæti króatísku deildarinnar þar sem Igor skoraði að meðaltali 6,1 stig á 15 mínútum.
Maric fór í nýliðavalið í NBA-deildinni árið 2004 en var ekki valinn. Þessi tæplega tveggja metra maður er með í kringum 40% skotnýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna á ferlinum og kemur án efa til með að styrkja lið ÍR töluvert í Subway-deildinni í vetur.