Valencia sterkara á lokakaflanum

Martin Hermannsson.
Martin Hermannsson. Ljósmynd/@YarisahaBasket

Spænska liðið Valencia sigraði franska liðið JL Bourg 98:95 í Evrópubikarnum í körfubolta í kvöld. Martin Hermannsson hafði hægt um sig og skoraði einungis tvö stig á þeim rúmlega 15 mínútum sem hann spilaði.

Martin lék ekki með Valencia gegn Barcelona um helgina vegna álagsmeiðsla í kálfa og var því notaður sparlega í kvöld.

Leikurinn var í járnum nánast allan tímann en að lokum var það Valencia sem fór með sigur af hólmi.

Ásamt því að skora tvö stig tók Martin þrjú fráköst, gaf fjórar stoðsendingar og varði eitt skot. Með sigrinum fór Valencia upp að hlið Virtus Bologna með þrjá sigra eftir fimm leiki í 3.-4. sæti B-riðils.

Elvar Már Friðriksson.
Elvar Már Friðriksson. Ljósmynd/FIBA

Elvar Már Friðriksson skoraði svo 10 stig þegar lið hans Antwerp Giants frá Belgíu tapaði 86:82 fyrir öðru belgísku liði, Belfius Mons, í Evrópubikar FIBA í körfubolta.

Elvar var fjórði stigahæsti leikmaður Antwerp en hann gaf einnig tvær stoðsendingar í leiknum og stal boltanum tvisvar á rúmlega 24 mínútum. Tapið þýðir það að Antwerp endar í þriðja sæti riðilsins með átta stig og eru því úr leik. Sporting vinnur riðilinn með 10 stig og Ionikis endar í öðru sæti með 9. Sigur Antwerp í kvöld hefði því þýtt að liðið færu áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert