Martin Hermannsson, leikmaður Valencia, hefur verið valinn í landsliðshóp karla í körfuknattleik eftir að hafa misst af undanförnum verkefnum liðsins. Landsliðið hefur leik í undankeppni heimsmeistaramótsins 2023 í næstu viku.
Liðið leikur þá tvo útileiki dagana 26. nóvember og 29. nóvember. Fyrst heldur liðið til Amsterdam og leikur gegn Hollandi þann 26. nóvember. Liðið heldur svo frá Hollandi yfir til St. Pétursborgar þar sem liðið leikur gegn Rússlandi þann 29. nóvember.
Með liðunum þremur er einnig lið Ítalíu í sama riðli en næsti leikgluggi karla verður í febrúar 2022 og á Ísland þá tvo leiki gegn Ítalíu. Eins og staðan er í dag stefnir allt í að báðir þeir leikir þurfi að fara fram á Ítalíu.
Eins og greint hefur verið frá þurfti nefnilega að skipta um heimaleik og útileik gegn Rússlandi vegna aðstöðuleysis á Íslandi. Ekkert hús stenst grunn keppniskröfur FIBA eins og er en Laugardalshöllin, sem er þegar á undanþágu, er ónothæf um þessar mundir.
Landsliðshópur Íslands fyrir leikina tvo í nóvember er þannig skipaður:
Elvar Már Friðriksson · Antwerp Giants, Belgíu (56)
Hilmar Smári Henningsson · Stjarnan (7)
Jón Axel Guðmundsson · Bologna, Ítalía (13)
Kári Jónsson · Valur (22)
Kristinn Pálsson · Grindavík (23)
Kristófer Acox · Valur (44)
Martin Hermannsson · Valencia Basket, Spánn (69)
Ólafur Ólafsson · Grindavík (46)
Ragnar Ágúst Nathanaelsson · Stjarnan (55)
Tryggvi Snær Hlinason · Basket Zaragoza, Spánn (47)
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson · KR (14)
Ægir Þór Steinarsson · Gipuzkoa Basket, Spánn (64)