Curry nálgast toppsætið

Stephen Curry er í miklu stuði þessa dagana.
Stephen Curry er í miklu stuði þessa dagana. AFP

Stephen Curry er farinn að nálgast toppsætið á listanum yfir þá sem skorað hafa flestar þriggja stiga körfur í NBA-deildinni í körfuknattleik. 

Ray Allen hefur verið í efsta sæti listans í mörg ár en hann skoraði 2.973 þriggja stiga körfur á ferlinum fyrir Milwaukee Bucks, Seattle SuperSonics, Boston Celtics og Miami Heat. 

Stephen Curry er 33 ára og hefur sett niður 2.908 skot fyrir utan þriggja stiga línuna fyrir Golden State Warriors. Mikið þarf að fara úrskeiðis til að Curry nái ekki að slá metið og ætti það að vera einungis tímaspursmál. 

Curry hefur farið mikinn í síðustu leikjum en í þremur af fjórum síðustu leikjum Golden State hafa þriggja stiga körfunar verið níu hjá kappanum. Hittni hans af þessu færi á tímabilinu er 42%. 

Í þriðja sæti listans er Reggie Miller sem skoraði 2.560 þriggja stiga körfur fyrir Indiana Pacers. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert