Körfuknattleikskappinn fyrrverandi Scottie Pippen heldur áfram að láta fyrrverandi samherja sinn Michael Jordan heyra það í nýútkominni ævisögu sinni, Unguarded.
Pippen hefur verið duglegur að gagnrýna stórstjörnuna, sem er af mörgum talinn besti leikmaður allra tíma, en þeir léku saman hjá Chicago Bulls frá árunum 1987 til 1993 og svo aftur frá 1995 til ársins 1998.
Saman urðu þeir sex sinnum meistarar, frá 1991 til ársins 1993 og aftur frá 1996 til 1998 en Jordan hætti óvænt körfuboltaiðkun á árunum 1993 til ársins 1995.
„Michael Jordan eyðilaggði körfuboltann, svo einfalt er það,“ skrifaði Pippen í ævisögu sína.
„Á 9. áratugnum vildu allir sem spiluðu leikinn hreyfa boltann reglulega á milli manna. Þetta snérist um liðið og þú sendir boltann til þess að hjálpa liðinu.
Mike vildi aldrei gefa boltann, hann tók ekki fráköst og hann dekkaði aldrei bestu leikmennina. Hann vildi láta gera hlutina fyrir sig.
Þess vegna er Lebron James besti leikmaður sögunnar. Hann gerir alla þessa hluti og vinnur grundvallarvinnuna sem körfubolti snýst um,“ sagði Pippen meðal annars.