Landsliðsbakvörðurinn Elvar Már Friðriksson fór einu sinni sem áður fyrir liði sínu Antwerp Giants þegar liðið hafði betur gegn Spirou Charleroi í framlengdum leik í belgísku úrvalsdeildinni í körfuknattleik í dag.
Elvar náði tvöfaldri tvennu þegar hann skoraði 25 stig, tók þrjú fráköst og gaf tíu stoðsendingar í 90:81 sigri.
Var hann stigahæstur í leiknum, sem var æsispennandi lengst af. Staðan að loknum fjórða leikhluta var 75:75 en Antwerp vann framlenginguna örugglega, 15:6, og sigldi góðum sigri í höfn.
Antwerp hefur leikið vel á tímabilinu og er eftir sigurinn í dag í öðru sæti belgísku úrvalsdeildarinnar, þremur stigum á eftir toppliði Oostende þegar bæði lið hafa leikið 10 leiki.