Fjölnir vann sannkallaðan stórsigur, 99:60, þegar liðið heimsótti Breiðablik í Smárann í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, Subway-deildinni, í kvöld.
Fjölnir leiddi 30:25 að loknum fyrsta leikhluta en í öðrum leikhluta tók liðið leikinn fullkomlega yfir og leiddi 56:32 í hálfleik.
Eftirleikurinn í síðari hálfleik reyndist afskaplega auðveldur og 39 stiga sigur varð niðurstaðan.
Fjölnir er í þriðja sæti eftir sigurinn, með 10 stig eftir sjö leiki.
Breiðablik er áfram með aðeins tvö stig eftir jafnmarga leiki, í sjöunda og næstneðsta sæti.
Í leiknum í kvöld fór Aliyah Mazyck á kostum fyrir Fjölni og náði tvöfaldri tvennu. Skoraði hún 27 stig og tók 12 fráköst að auki.
Telma Lind Ásgeirsdóttir og Anna Soffía Lárusdóttir voru stigahæstar Blika, báðar með 12 stig.