Haukar unnu toppliðið

Sólrún Inga Gísladóttir var stigahæst Hauka í kvöld.
Sólrún Inga Gísladóttir var stigahæst Hauka í kvöld. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Haukar gerðu góða ferð suður með sjó og unnu þar nýliða og topplið Njarðvíkur í hörkuleik í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, Subway-deildinni, í kvöld.

Njarðvík hóf leikinn betur en í öðrum leikhluta sneru Haukar taflinu við. Gestirnir úr Hafnarfirði leiddu með fimm stigum, 33:28, í hálfleik.

Haukar juku aðeins forystuna en heimakonur í Njarðvík neituðu að gefast upp.

Þegar tæpar þrjár mínútur lifðu leiks tókst Njarðvík að minnka muninn niður í aðeins tvö stig, 53:51.

Haukar skoruðu hins vegar næstu sex stig og lögðu þar með grunninn að góðum sigri.

Lokatölur urðu 63:56, Haukum í vil, og hefur liðið nú unnið fjóra af fyrstu fimm leikjum sínum í deildinni.

Njarðvík hefur spilað þremur leikjum meira og er áfram á toppnum með 12 stig eftir að hafa unnið sex af fyrstu átta leikjum sínum.

Sólrún Inga Gísladóttir var stigahæst Hauka með 21 stig.

Lavína De Silva var stigahæst í leiknum með 22 stig fyrir Njarðvík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert