Haukar taka á móti hinu sterka franska liði Tarbes í Ólafssal á Ásvöllum í kvöld í EuroCup keppni kvenna í körfuknattleik.
Leikurinn verður síðasti heimaleikur Hauka í keppninni á þessu tímabili en liðið vann sig inn í riðlakeppni EuroCup í upphafi tímabilsins. Leikur liðið þrjá leiki heima og þrjá erlendis í riðlakeppninni.
Tarbes sigraði 66:53 þegar liðin mættust í Frakklandi fyrr í haust. Franska liðið vann öruggan sigur á Brno frá Tékklandi í síðasta leik í keppninni í byrjun nóvember en Haukar hafa tapað fyrstu fjórum leikjunum í keppninni en andstæðingarnir eru allir mun hærra skrifaðir en íslensk félagslið. Tarbes hefur hins vegar unnið fyrstu fjóra og á góða möguleika á að vinna riðilinn.