Frábært franskt lið of sterkt fyrir Hauka

Rósa Björk Pétursdóttir sækir að leikmönnum Tarbes í Hafnarfirðinum í …
Rósa Björk Pétursdóttir sækir að leikmönnum Tarbes í Hafnarfirðinum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Haukar fengu franska liðið Tarbes í heimsókn í Evrópubikar kvenna í körfubolta á Ásvöllum í dag. Þrátt fyrir fína spilamennsku Hauka var franska liðið einfaldlega of sterkt og fóru með 41:79 sigur af hólmi.

Fyrsti leikhluti var algjör eign gestanna. Haiden Palmer skoraði fyrstu stig leiksins þegar hún kom Haukum í 2:0 en eftir það tók Tarbes öll völd á vellinum. Yohana Ewodo lék á als oddi og staðan eftir fyrsta leikhluta var 8:24, gestunum í vil. Haukar byrjuðu annan leikhluta þó af gríðarlegum krafti. Brianna Michelle Gray setti niður fallega þriggja stiga körfu áður en Bríet Sif Hinriksdóttir bætti við fimm stigum. Fyrstu átta stig leikhlutans komu því frá Haukum. Því miður fyrir þær svaraði Tarbes einfaldlega í sömu mynt og settu næstu átta stig leiksins. Haukum gekk þó mun betur í öðrum leikhluta en þeim fyrsta og eftir að hafa tapað fyrsta leikhluta með 16 stigum unnu þær annan með þremur. Tarbes leiddi því í hálfleik, 23:36.

Í þriðja leikhluta skiptust liðin nokkurn veginn á stigum en gestirnir juku forskotið þó aðeins. Haukar köstuðu boltanum allt of oft beint í hendur andstæðings sem gerði þeim mjög erfitt fyrir. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 32:52. Í fjórða leikhluta gáfu gestirnir þó í og juku forskotið enn frekar. Haukar virtust þreytast aðeins og fór að verða erfiðara að skora körfur. Að lokum unnu gestirnir þægilegan sigur, 41:79.

Haiden Palmer var stigahæst í Haukaliðinu en hún skoraði 14 stig og tók 7 fráköst. Hjá gestunum átti Julie Wojta sannkallaðan stórleik. Hún skoraði 28 stig og tók heil 19 fráköst. Renata Brezinova átti einnig frábæran leik en hún skoraði 16 stig, tók fimm fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

Tarbes er áfram með fullt hús stiga á toppi L-riðils keppninnar eftir fimm umferðir. Villeneuve er í öðru sætinu, Brno í þriðja og Haukar reka lestina án sigurs. Haukar ferðast til Tékklands í næstu viku og spila þar síðasta leik sinn í riðlinum, gegn Brno.



Haukar 40:79 Tarbes opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert